Hundategundir

Prenta
Hreinræktaðir hundar

Í næstum 15.000 ár hefur hundurinn staðið við hlið mannsins og myndað við hann ákaflega sterk tengsl. Hundurinn er náinn manninum hvort sem um þjónustuhund eða félaga er að ræða. Í gegnum aldirnar hefur maðurinn haft mikil áhrif á þróun hundakyna með því að velja tegundir eftir hæfileikum þeirra og lundarfari. Hundastofninn með sínum tæplega 400 tegundum er afar fjölbreyttur hvað varðar stærðir, gerðir felda, líkamsbyggingu og lundarfar.

Að velja réttan hund

Sá sem kaupir ræktaðan hund vill vera viss um að þegar hvolpurinn er orðinn fullvaxinn hundur hafi hann líkamlega og atferlislega eiginleika sem eru í samræmi við valið á tegundinni sem hundaræktandinn hefur ræktað af fagmennsku. Í augum margra áhugamanna er útlit hundsins það sem hrífur í fyrstu, sætt trýnið, líkamsbyggingin, feldurinn og stærðin. Hins vegar liggja að baki útlitinu atferlislegir eiginleikar hjá hverri og einni tegund sem taka þarf með í reikninginn áður en hundur er valinn til kaups. Því er mikilvægt að þú aflir þér upplýsinga um hundaræktarfélög og þá hundaræktendur sem þú hefur kynni af á hundasýningum.

Samrýmdir félagar

Atferli hundsins mótast fyrir fæðingu, við fæðingu og eftir hana. Með „fyrir“ er átt við erfðamengið. „Við fæðingu“ merkir réttara sagt lykiltímabilið frá fæðingu og þar til hvolpurinn fer frá ræktanda til sinna nýju heimkynna. „Eftir“ vísar til umhverfisins sem hvolpurinn á eftir að aðlagast – framtíðarheimili sínu. Með öðrum orðum þá er atferli hundsins að miklu leyti ákvarðað innan fyrstu fjögurra mánaðanna fyrir komu hans á heimilið. Erfðamengi hundsins, umhverfið og sértæk reynsla eins og koman á nýtt heimili og fyrstu útiverustundirnar eru þættir sem tengjast órjúfanlegum böndum. Án fullnægjandi þjálfunar þar sem hundinum er sýnt afar ákveðið hver er húsbóndinn, þ.e.a.s hver er foringi hjarðarinnar því hundurinn skynjar fjölskylduna sem hjörð, mun hundurinn taka völdin og þá gildir einu af hvaða stærð og tegund hann er. Hundaþjálfunarfélög eru frábær vettvangur til að kynnast atferli hunda, þörfum þeirra og hvernig best er að haga samskiptum við þá svo úr verði gæfurík sambúð.

Borgarhundar og sveitahundar

Hvort sem um er að ræða veiðihund, varðhund eða gæludýr þá eiga hundar af ræktuðu kyni sér ávallt sögulegan bakgrunn sem leikur sitt hlutverk í hæfileikum þeirra og lundarfari. Flestar hundategundir geta núorðið lifað í borg svo lengi sem séð er til þess að hundarnir fái sína daglegu útivist sem þarf að vera minnst 30 mínútur á dag og þeir fái meiri athygli en þá sem bundin er við daglega matartíma.

Hins vegar hentar borgarlífið sumum hundategundum ekki og hættara við að þeim líði verr en öðrum vegna þess að hundarnir fá ekki að reyna nógu mikið á sig. Þetta á t.d. við um Border Collie sem er fæddur til að reka hjarðir, eða Síberíuhundinn sem ætlað er að lifa með hjörðinni sinni og draga vagna í köldu loftslagi.

Samt sem áður: Hver hefði trúað því hér áður fyrr að Yorkshire Terrier, sem var notaður til að veiða rottur í námunum í Jórvíkurskíri á Englandi, yrði innan árhundraðs orðinn vinsælasta tegund heims meðal ræktaðra dverghunda? Engu að síður er hann áfram í eðli sínu terrier-hundur og hefur kraftmikla skapgerð. Hvort sem hann býr í borg eða sveit er fjárhundurinn ávallt á varðbergi; að sama skapi er Irish Setter alltaf til í að hlaupa út í móa eða skóg og reka trýnið upp í loftið, og Retriever-hundurinn vill alltaf sækja þó ekki sé nema skóna þína.

Hinir ólíku tegundahópar

Allt frá tímum Rómverja hafa hundar verið flokkaðir eftir eiginleikum sínum. Rómverjar gerðu greinarmun á smalahundum, veiðihundum og húshundum. Á 18. öld reyndi Buffon að flokka hunda eftir lögun eyrnanna og greindi þrjátíu tegundir hunda með sperrt eyru, lafandi eyru og hálflafandi eyru. Cuvier lagði aftur á móti til að hundategundum yrði skipt í „varðhunda“, „mastíf“ (eða meistara) og „spaníela“, allt eftir lögun hauskúpunnar.

Allt frá sjötta áratug síðustu aldar hefur alþjóðasamband hundaræktenda, Fédération Cynologique Internationale (FCI), byggt á flokkun mismunandi tegunda niður í tíu tegundahópa. Tegundahópur er skilgreindur sem „flokkur tegunda sem hafa sameiginlegan tiltekinn fjölda sérkennandi eiginleika sem geta borist áfram.“ Sem dæmi eiga hundar sem tilheyra fyrsta hópnum (Shepherd-hundar) þá sameiginlegu eðlisávísun að reka hjarðir og gæta þeirra, þrátt fyrir myndunarfræðilegan mismun innbyrðis.

Hópur 1: Fjárhundar (Shepherd) og hjarðhundar (nema Swiss Bouvier)

Hópur 2: Pinscher- og Schnauzer-hundar. Fjallahundar og Swiss Bouvier.

Hópur 3: Terrier-hundar

Hópur 4: Dachshund

Hópur 5: Spitz-gerðir og frumstæðir hundar

Hópur 6: Veiðihundar, blóðhundar og skyldar tegundir

Hópur 7: Bendihundar

Hópur 8: Sækihundar og vatnshundar

Hópur 9: Hundar til ánægju og félagsskapar

Hópur 10: KapphlaupshundarFáðu upplýsingar um meira en 300 tegundir

  • facebook