Hundar sem þjóna manninum

Prenta
Hundur sem félagi mannsins

Óumdeildur félagi mannsins

Án nokkurs vafa eru veiðar elsta samstarf manns og hunds. Að leita að bráð og ná henni er iðja sem menn og hundar hafa stundað í sameiningu frá upphafi og allt til dagsins í dag. Aðrir hundar nota þefskynið til að þjóna húsbóna sínum með því að finna sveppi eða steinefni.

Veiðihundar

Þessi iðja kallar á framúrskarandi líkamlegt atgervi hundsins og mannsins því hún er stunduð lengi í einu og í öllum veðrum. Hún krefst líka sterkrar skapgerðar, þolgæðis og athyglisgáfu auk þess næma þefskyns sem góður veiðihundur þarf að hafa.

Mismunandi veiðiaðferðir, veiðilendur og bráð eru ástæða einstakrar fjölbreytni meðal veiðihunda hvað snertir líkamsgerð. Nú eru til hundruð þessara tegunda, sem sprottið hafa af mismunandi notkun og landi. Terrier-hundar, vatnshundar, burðarhundar, bendi- og sækihundar hafa hver sína séreiginleika hvað snertir líkamsbyggingu, þefskyn og sjón. Veiði án hundsins, besta vinar og félaga veiðimannsins, er engin veiði í eiginlegum skilningi, þar sem þá vantar eltingarleikinn eða „keppnina“, og hundurinn stendur ekki alltaf uppi sem sigurvegari. Raunar tekst bráðinni oft að leika á hundinn, með eðlisávísun sinni, þekkingu á svæðinu og eigin brögðum, og sigrast þar á hæfileikum hundsins, sem eru úthald hans, styrkur og tilteknir eiginleikar sem eiga við þá gerð af veiði sem um ræðir hverju sinni.

Meðfæddir eiginleikar og þjálfun

Veiðihundar skipast í marga hópa í þeirri flokkun sem Alþjóðasamband hundaræktenda, FCI, hefur gefið út. Þeir eiga allir sameiginlega frábæra meðfædda hæfileika sem eru ávöxtur vandaðra vinnubragða við ræktun í gegnum áratugi. Mikilvægasti hæfileikinn af mörgum er sá að geta tekið frumkvæði. Það er nefnilega ekki nóg að hundurinn hafi gott þefskyn, hann þarf að kunna að nota það. Það er hér sem til sögunnar kemur öll vinnan sem þarf að leggja í þjálfun veiðihundsins. Hún krefst mikillar þolinmæði og lagni auk þess sem aðferðirnar eru ólíkar frá einum hundi til annars.

Á bak við hvern góðan veiðihund liggja margir mánuðir af daglegri vinnu. Undirgefni, að hlýða kalli, að breyta líkamsstöðu eftir skipunum og að kunna að nota nefið eru allt mikilvægir eiginleikar. Öll dýr hafa þróað þefskyn í samræmi við tegund sína og í tilfelli hunds, í samræmi við ræktað kyn sitt. Við lok þjálfunar á hundurinn að vera fær um að flokka mismunandi lykt sem berst með vindinum til að forðast mistök í þeim efnum. Bendihundur ætti hins vegar að geta leitað á gefnum stað án þess að hreyfa sig á staðnum, svo hann hræði ekki bráðina og dreifi henni; ennfremur þarf hann að skila dauðri bráð til veiðimannsins.

Þetta þarf allt að kenna hundinum við aðstæður þar sem hann er sem minnst heftur.

Hvert er eðli hundsins?

Það er hvorki í eðli þessar gerðar hunda að vera heimilisdýr né félagi manns eingöngu; við slíkar aðstæður nýtur hið sanna eðli hans sín ekki. Svo ef þú átt svona hund en ert ekki veiðimaður sjálf(ur) verður þú að gefa dýrinu tækifæri til að hlaupa um og leika sér úti daglega því þéttbýli er ekki heppilegt veiðisvæði.

Sveppaleitarhundar

Eitt verkefni hafa hundar með höndum sem vekur sælkerum mikla gleði: þeir grafa upp úr jörðu girnilega matsveppi, trufflur.

Þessir neðanjarðarsveppir eru svo sjaldgæfir að í Frakklandi hafa þeir viðurnefnið „svartagull“. Fjölmörg dýr geta þefað þá uppi: geitur, kindur, svín og nú í seinni tíð – hundar.

Allar hundategundir eru nothæfar við þetta svo lengi sem hundurinn hefur fengið nægilega þjálfun svo hann geti annaðhvort fundið trufflusveppi á ræktuðum svæðum eða úti í náttúrunni.

Hefðbundnar aðferðir fela í sér að hvolpar sem ætlað er þetta hlutverk eru vandir á lyktina af trufflusveppum allt frá fæðingu með því að sveppasafinn er settur á spena tíkarinnar og síðar er safanum kerfisbundið bætt við mat hvolpanna. Uppfrá því tengir hundurinn lyktina af trufflum við neyslu matar og tekur að leita kerfisbundið eftir þessari lykt.

Hundar sem finna steinefni

Hundar voru í fyrsta skipti notaðir til að leita að steinefnum í Finnlandi árið 1962. Á þeim tíma leituðu hundar að grjóti með brennisteinsinnihaldi. Þessi iðja var síðan stunduð með góðum árangri í Svíþjóð, Rússlandi og Kanada. Í öðrum löndum eru hundar notaðir til að leita að nikkel og kopar þó að erfiðara sé að finna þessi efni þar sem þau gefa ekki frá sér eins sterka lykt og brennisteinn. Beitt er svipuðum aðferðum og við þjálfun hunda við fíkniefna- og sprengjuleit. Í Austur-Evrópu og Skandinavíu þar sem þessir hundar eru notaðir er gjarnan sagt að góður hundur geti fundið viðfang sem liggur á allt að 15 metra dýpi.

  • facebook