Hundar sem þjóna manninum

Prenta
Björgunarhundar

Hetjuhundar

Allt frá því hundar urðu húsdýr hafa þeir hjálpað mannfólkinu við margskonar störf, við veiðar, vöktun og smölun. Í gegnum árin hafa hundar líka gert margt fleira:

Snjóflóðahundar

Leit eftir snjóflóð er dæmi um björgunarstörf þar sem bráð þörf er fyrir hund. Einstakt þefskyn hundsins, hraði hans og þol setja hann í forgrunn við þessar aðstæður. Hins vegar er hundurinn hluti af hóp þar sem einnig eru rannsakendur og grafarar. Björgunarliðin starfa samtímis en hundarnir hafa forgang í snjóskriðunum.

Hvers vegna er hundunum att svona fram? Tíminn er grundvallaratriði við björgunarstarf í fjöllum: því fyrr sem flóðasvæðið er kannað því fleirum eru björgunarmenn líklegir til að bjarga á lífi úr snjónum. Það er hér sem starf hundsins skiptir sköpum. Hundurinn vinnur hér jafnvel eða betur en maðurinn og auk þess er hann fljótari að kanna svæðið. Tuttugu björgunarmenn á skíðum eru tuttugu klukkustundir að kanna eins hektara snjóflóðasvæði í þaula en hundurinn nær sama árangri á tveimur klukkustundum.

Sporhundar

Sporleit snýst um að leita að fólki á grunni ýmissa vísbendinga þar sem þefskyn kemur við sögu. Í slíkum leiðangri er markmiðið að finna einn eða marga einstaklinga eða greina hverja þá hluti eða verkfæri sem týnst hafa á svæðinu eða í nágrenni þess, jafnvel einfaldlega greina í hvaða átt var haldið. Líkami manna gefur sífellt frá sér agnir sem þefa má uppi. Mynstrið sem hundurinn stendur frammi fyrir er sett saman úr nokkrum þáttum: sérstök lykt (lykt sem sérgreinir einstakling, hóp eða tegund), efnalykt (leður, fita, föt), niðurbrotin efni á svæðinu (traðkaðar plöntur, bakteríur sem koma upp á yfirborðið vegna rasks á jörðu), búsvæði (viður, engi, uppskera), og veðurskilyrði. Þar sem sporleit er afar flókin og krefst sérhæfðrar þjálfunar sem ekki allir hundar eru móttækilegir fyrir er grundvallaratriðið að velja fyrir fram hæfileikaríka hunda. Dýrin sem valin eru þurfa að sýna eftirfarandi hæfileika: Sérstaklega vel þróað þefskyn, framúrskarandi einbeiting svo þeir láti ekki truflast af lykt af sníkjudýrum og umhverfinu (haldi athyglinni á slóðinni); kraftur, úthald, líkamsstyrkur og harka; þá loks hugrekki og óttaleysi við byssuskot.

Leitarhundar

Leit að týndu fólki er í sama flokki og sporleit. Hins vegar er aðferðin önnur: Hundinum er hvorki sýndur hlutur til að vísa veginn né hugsanlegur staður til að hefja leitina. Hundinum er einfaldlega sleppt án nokkurs taums. Vinna hans snýst um að leita eftir tiltekinni lykt á skilgreindu svæði eins og gert er við leit eftir snjóflóð og grjótskriður.

Sjóbjörgunarhundar

Eins og í öllum öðrum björgunaraðgerðum leikur hundurinn mikilvægt hlutverk við aðstoð björgunarmanna á sjó, þökk sé líkamlegu atgervi hans og viljaþreki. Newfoundland-hundurinn er eftirsóttasta tegundin við björgunarstörf á sjó og vatni. Þessi tegund hefur marga kosti sem koma sér vel við björgunarstörf á sjó og vatni:

Líkamsstyrkur: Hann getur dregið marga menn eða margra tonna bát;

Þrek: Hann getur synt klukkutímum saman og langar vegalengdir;

Kuldaþol hans veldur því að hann getur tekið til starfa undir eins á vettvangi, ólíkt kafara sem þarf um fimm mínútur til að undirbúa sig.

Einstök yfirvegun hans við allar aðstæður hefur róandi áhrif á skipbrotsfólk;

Seigla hans er slík að hann myndi aldrei hlaupast frá verkinu;

Hann er tiltækur undir eins og þarf engan búnað.

Hvolpar sem valdir eru til björgunarstarfa á sjó og vatni eru valdir með tilliti til vöðvastyrks og sterkrar beinagrindar, með röntgenmyndaskoðun til að kanna mögulega óeðlilegan vöxt í vefjum mjaðmarinnar.

Rústabjörgunarhundar

Hlutverk rústabjörgunarhunda takmarkast ekki við jarðskjálfta. Þeir geta komið við sögu eftir jarðskriður eða hrun bygginga, eftir eldsvoða, hrun á vinnusvæði eða í námu, við járnbrautarslys eða flugslys. Því miður er enginn skortur á tilefnum.

Á Bretlandi í seinni heimsstyrjöldinni voru hundar í fyrsta skipti notaðir til að finna fólk grafið undir rústum eftir loftárásir. Þegar árið 1954 voru stofnaðar þjálfunarstöðvar fyrir leitarhunda í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Sviss. Svissnesku hundarnir urðu heimsfrægir eftir jarðskjálftann í Frioul á Ítalíu árið 1976. Þá tókst 12 hundum að finna 42 manneskjur á lífi og 510 lík í rústunum.

Allar götur síðan hefur hugrekki og þolgæði björgunarhunda ávallt vakið athygli fjölmiðla við hamfarir og hörmungar, sérstaklega eftir hryðjuverkin þann 11. september 2001.

Líkt og við önnur verk þar sem hundar og menn vinna saman er hér afar náið samband milli húsbónda og hunds nauðsynlegt. Sá sem stjórnar leit með hundi verður að þekkja dýrið mjög vel og vera hæfur til að lesa atferli þess við rústabjörgun, þ.e. vera á varðbergi gagnvart viðbrögðum hundsins. Að sama skapi þarf hundurinn að treysta húsbónda sínum fullkomlega til að elta hann hvert sem er, sama hvaða hindranir verða á leiðinni. Langan aðdraganda þarf að svo traustu og nánu sambandi. Hundar sem notaðir eru við rústabjörgun þurfa að hafa næmt lyktarskyn, vera yfirvegaðir, í góðu jafnvægi og fullir af orku. Þeir þurfa að vera félagslyndir gagnvart mönnum sem og öðrum hundum því oft eru margir hundar og margt manna á vettvangi. Leikgleði er líka nauðsynleg til að geta lært. Algengustu hundategundirnar við björgunarstörf eru fjárhundategundir, sérstaklega þýskir og belgískir fjárhundar.

Myndskeið

The dog’s origin

Several hypotheses have been put forward as to the origins of dog domestication which took place approximately fifteen thousand years ago. Joint hunting, wolves having chosen to get closer to men in order to take advantage of their food scraps or wolf cubs adopted by human groups. All these hypotheses are plausible.

Myndir

  • facebook