Að halda hund

Prenta
umhirða

Þú vilt hugsa vel um hundinn þinn

Það táknar að vera úti með honum daglega. Það krefst þess líka að unnin séu einföld verk reglulega sem viðhalda hreinlæti dýrsins og gera þér kleift að uppgötva í tíma ummerki um mögulega sjúkdóma.

ÚtiveraNauðsynlegt að fara út með hundinnÚtivera er í fyrsta sæti yfir það sem tryggir vellíðan og velferð dýrsins. Hundurinn er félagsvera sem þarf að hitta aðrar lifandi verur og kanna svæði. Hvort sem hann býr í fjölbýli eða einbýli nægir honum engan veginn að skreppa út í fimm mínútur á morgnana og kvöldin, jafnvel ekki að dveljast í aflokuðum garði. Klukkustundarlöng dagleg ganga nægir honum til að gera þarfir sínar, fá útrás fyrir orkuna og blanda geði við aðra hunda. Allra best er að fara með hann á opið svæði þar sem hann getur hreyft sig ólarlaus. Tveggja klukkustunda vera í almenningsgarði eða uppi í sveit veitir hundinum kærkomna breytingu á umhverfi. Gömlu eða veiku dýri nægir að komast út tvisvar á dag til að geta gert þarfir sínar. Orkumiklir hundar eins og Border Collie þurfa hins vegar miklu meiri daglega hreyfingu.

Vel taminn hundur gengur við ól og sé honum sleppt lausum kemur hann til baka til eiganda síns um leið og kallað er á hann. Ef þetta er ekki tilfellið er hægt að leita aðstoðar hjá hundaþjálfara við að innræta dýrinu þessar grundvallarreglur.

Eftir gönguna

Eftir heimkomuna þarf að skoða hundinn vandlega. Gæta þarf að því hvort eitthvað hafi stungist í þófana (t.d. flísar eða glerbrot). Einnig þarf að gæta að því að flísar hafi ekki stungist inn á milli klónna eða inn í eyrun. Ef þú ferð með hundinn úti á tún eða engi geta strá og stönglar stungist inn í vefi í þófunum og valdið slæmum sárum. Ef þú ferð út að ganga með hundinn í snjó getur hann fengið mikið af sprungum á þófana vegna saltsins sem stráð er á götur og gangstéttar. Þá þarf að þvo fætur hundsins með volgu vatni.

Flísar og strá stingast gjarnan inn í eyrun. Ef slíkt hefur farið inn í eyrnagöngin þarf að ná því út með flísatöng. Þetta getur verið sársaukafullt fyrir hundinn og ef staðan er sú þarf að fara til dýralæknis. Ráðlagt er að raka lafandi eyru að innan á vorin til að koma í veg fyrir að strá og stönglar festist þar.

Gæta þarf að því hvort maurar og sníkjudýr séu á viðkvæmum stöðum á hundinum því þau geta valdið piroplasmosis en það er flokkur sjúkdóma sem sníkjudýr valda í sauðfé og húsdýrum.

Ef hundinum finnst gaman að stinga sér til sunds er nauðsynlegt að hreinsa feld hans á eftir. Bæði í ám og sjó geta agnir fest í feldinum og valdið hundinum kláða.

Daglegt hreinlæti

Nef

Nefið ætti að vera rakt og ferskt á öllum tímum dagsins. Hins vegar getur það orðið þurrt þegar hundurinn sefur. Þá þarf að væta nefið aftur þegar hann vaknar. Ef vart verður við skán, sprungur eða slímgröft getur það verið vísbending um sjúkdóm sem dýralæknir verður að kanna.

Vangaholrými

Hvort sem munnvik eru slútandi eða ekki ætti skolturinn að vera hreinn og lokast vel. Þú skalt kanna hvort þú sérð sprungur eða rauða bletti. Tennur eiga að vera hvítar og tannsteinn í lágmarki. Gómarnir eiga að vera bleikir. Ef rauðar línur sjást upp við tennurnar er um kvilla að ræða sem veldur hundinum sársaukafullum sviða og getur spillt matarlyst hans þar sem hann getur ekki lengur tuggið matinn.

Þó að hundar séu sjaldan samvinnuþýðir þegar kemur að munnhirðu er samt ráðlegt að hreinsa tennur þeirra oft í viku. Það vinnur jafnframt gegn andremmu. Best er að nota tannbursta og tannkrem sem ætlað er hundum. Það má líka gefa hundinum tannvænar matarstangir sem hundurinn tyggur og með því hægja þær á tannsteinsmyndun. Þessar stangir ætti að gefa daglega til að þær virki sem best. Health Nutrition þurrfæði er sérhannað til að halda tönnum og munnholi hreinu, sérstaklega í smávöxnum hundum, en lögun tanna þeirra og skolts gerir þá viðkvæma fyrir sjúkdómum í tönnum og munnholi.

Augu

Augun eiga að vera björt og rök með bleikri slímhúð. Engin útferð á að vera sjáanleg í augnkrókunum. Vel er mögulegt að hreinsa augu hundsins með augndropalausn. Til að gera svo þarf að ýta höfði hundsins upp, opna efra augnlok hans og láta nokkra dropa drjúpa í augað. Umframmagn af lausninni sem flæðir út fyrir ætti að þurrka upp með grisju. Til að hræða ekki hundinn ætti að nálgast hann aftan frá með flöskuna. Gæta skal að því hvenær varan er útrunnin og geymsluþoli hennar.

Eyru

Tvær gerðir af hundaeyrum fyrirfinnast: lafandi eða upprétt. Lafandi eyru þarf að skoða oftar en önnur því lokun ytri eyrnagangana hamlar eðlilegu loftflæði inn í eyrað. Eyrun á að hreinsa reglulega. Lafandi eyru má hreinsa einu sinni eða tvisvar í viku og upprétt eyru á tveggja vikna fresti. Við hreinsun skal nota efni sem hentar hundaeyrum. Þú skalt stinga pinna inn í eyrnagöngin (engin hætta er á að hljóðhimnan rifni þar sem göngin eru L-laga). Efninu er síðan sprautað inn. Efninu er sprautað í eyrað, pinninn er tekinn út og efsti hluti eyrans nuddaður í 30 sekúndur. Að lokum skal þurrka eyrnagöngin með bómull eða grisju án þess að því sé stungið inn. Mælt er með því að lafandi eyru séu rökuð að innan á vorin til að koma í veg fyrir að strá og annað festist í þeim.

Kynfæri og endaþarmur

Fylgjast þarf reglulega með því að kynfæri hunda af báðum kynjum séu hrein. Ef útferð finnst skal kalla til dýralækni. Endaþarmurinn á að vera hreinn og ekki sýna nein merki um niðurgang.

Klær

Tvær gerðir af hundaklóm fyrirfinnast: smalaklær og fingurklær. Vöxtur klónna er stöðugur og venjulegar athafnir hundsins ættu að duga til að sverfa hæfilega af þeim. Ef sú er ekki raunin (það heyrist í klónum þegar hundurinn gengur) ættir þú að klippa þær með hundanaglaklippum. Hins vegar er mikilvægt að viðhalda blóðflæði undir klónum. Bleikur þríhyrningur á að sjást í gegnum klærnar. Sömu aðferð skal nota fyrir smalaklærnar. Klærnar eru oft þaktar hárum, en ekki má gleyma þeim því ef þær vaxa inn geta þær valdið sársauka og sárum.

Bóluefni og ormalyf

Bóluefni

Ýmiskonar bóluefni geta komið hundinum vel en þau eru ekki öll nauðsynleg. Það er hlutverk dýralæknis að gera ónæmisáætlun í samræmi við þær hættur sem hann hefur greint. Bóluefnið veitir aðeins vörn í takmarkaðan tíma og gildir þá einu hvaða sjúkdómur á í hlut. Bólusetningum þarf að halda áfram út ævi hundsins. Því ætti reglulega að panta tíma í bólusetningu hjá dýralækni.

Útvortis og innvortis sníklalyf

Flær og maurar sem geta borið sjúkdóma birtast reglulega og endurtekið, sérstaklega á vorin. Margar vörur gegn þessum óværum eru í boði á markaðnum, úðar, dropar og kragar. Þessar vörur gagnast vel í baráttu gegn þeim skaða sem þessi dýr geta valdið, en þau geta líka skaðað heilsu manna. Hvað snertir ormahreinsun þá skal hún fara fram kerfisbundið og reglulega í samræmi við það ferli sem dýralæknir fyrirskipar því ólík stærð dýranna, aldur og lífsmáti ásamt öðrum viðmiðum kalla á mismunandi ormalyf.

Umhirða feldsins

Þvottur

Æskileg tíðni baðferða er mismunandi eftir hárgerð: Mjög snöggt hár á eingöngu að þvo þegar það er skítugt, snöggt hár tvisvar á ári að meðaltali og sítt hár á u.þ.b. þriggja mánaða fresti. Litla hunda á að baða í bala eða barnabaðkari og stóra hunda ætti að baða í venjulegu baðkari eða utandyra ef veður leyfir. Gott er að notast við gúmmímottu í botni til varnar því að hundurinn renni til og meiðist eða verði hræddur. Baða skal hundinn með volgu vatni og sérstakri hundasápu. Nauðsynlegt er að halda sig við hundasápuna því sýrustig í húð hunda er ólíkt því sem er í mönnum. Bursta ætti feldinn fyrir böðun til að leysa úr hárflækjum. Eftir að sápan hefur verið borin á allan skrokk hundsins þarf bara að láta hana freyða og gæta þá um leið að höfðinu og eyrunum. Skola þarf sápuna vandlega úr og síðan þurrka hundinum vel.

Hárlos

Það gildir um allar gerðir hundafelda að hárin vaxa, deyja og endurnýjast. Hundar sem lifa utandyra fara úr hárum tvisvar á ári, á vorin og haustin í samræmi við birtuskipti. Hundar sem lifa innandyra verða ekki fyrir jafnmiklum áhrifum af birtubreytingum og þess vegna missa þeir hárið allt hárið um kring, en þó mest á vorin og haustin. Með því að bursta og baða hundinn reglulega má losa dauð hár úr feldinum. Æskileg tíðni og búnaður eru mismunandi eftir hárgerðum.

Sumir hárgerðir kalla á að þú farir með hundinn til hundasnyrtis.

Snöggt hár

Með því að renna bursta öfugt á hárin losnar um flösu og dauð hár. Þú ættir síðan að renna bursta í sömu átt og hárin vaxa yfir allan skrokkinn. Burstuninni er lokið þegar þú lætur feldinn glansa með því að strjúka hann með röku þvottaskinni.

Snögg og hörð hár

Vegna þéttleika feldarins (undirfeldur og varnarhár) ætti að bursta feldinn annan hvern dag. Síðan ætti að renna kambi öfugt á hárin til að ná eins mörgum hárum og dauðum frumum og hægt er og þynna út undirfeldinn. Þú ættir síðan að renna bursta réttsælis yfir allan skrokkinn til að fjarlægja allt sem hefur losnað. Hárin á rófunni og fótleggjunum má greiða með grófri greiðu. Feld með hörðum hárum, eins og t.d. á Dachshund eða West Highland White Terrier hundum, ætti að þynna út fjórum til fimm sinnum á ári með snyrtihníf. Þannig má losa dauð hár sem festast milli hnífsins og þumalfingurs. Þetta er ekki sársaukafullt fyrir hundinn ef rétt er farið að, með því að toga í sömu átt og hárið vex.

Sítt hár

Hund með síðan feld þarf að bursta daglega og greiða úr flækjum í feldinum. Hjá til dæmis Afghan Hound getur þetta tekið allt að eina klukkustund á dag. Þú ættir síðan að renna kambi með vaxtarstefnu háranna yfir allan skrokkinn til að losa hnúta og fjarlægja hár úr undirfeldi. Gerðu þetta eins varlega og hægt er til að valda hundinum ekki sársauka. Á silkihærða hunda (t.d. Yorkshire Terrier og Afghan Hound) má nota bursta til að gljáa feldinn. Hjá hundum með mikinn undirfeld (t.d. Long Haired Collie) má fjarlægja óhreinindi með málmbursta. Loks eru hárin á hækilbeini hundsins (á afturfótum) greidd með grófri greiðu. Með skærum má snyrta feldinn og fjarlægja hárin sem oftast fara í flækju og valda óhreinindum (hækilbein, brjóst, svæðin milli klóa og þófar).

  • facebook